Fróðleiksmolar

Það er margt í lögfræðinni sem viðkemur daglegu lífi. Sumt af því er einfalt, eins og þegar við kaupum mjólk úti í búð eða borgum fyrir klippingu. Aðrir hlutir eru ef til vill orðnir flóknari, en er samt nauðsynlegt að vita af til þess að unnt sé að gera ráðstafanir.

Á þessa síðu munu reglulega koma inn litlir fróðleiksmolar, fréttir og pistlar um hluti sem koma okkur öllum við, eitthvað sem er nauðsynlegt að vita eða einfaldlega gaman að velta fyrir sér og vita meira um.

Vinnuslys

Ef aðili verður fyrir slysi við vinnu sína á sá hinn sami rétt á bótum úr slysatryggingu launþega, sem hverjum vinnuveitanda er skylt að hafa. Þetta gildir líka þegar aðili er á leið í eða úr vinnu. Ef slysið verður vegna atvika sem vinnuveitandi ber ábyrgð á, getur tjónþoli átt rétt á skaðabótum úr ábyrgðartryggingu vinnuveitanda.

Mikilvægt er að tilkynna slys strax til tryggingafélags og eigi síðar en innan árs frá slysdegi. Gildir það að jafnaði um öll bótaskyld slys. Þá þarf að tilkynna vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands og um það gildir einnig framangreindur ársfrestur. Tjónþoli getur átt rétt á bótum þaðan, sem og dagpeningum og endurgreiðslu sjúkrakostnaðar. Í vissum tilfellum ber atvinnurekanda að tilkynna slysið einnig til Vinnueftirlitsins.

Þegar tjónþoli hefur náð stöðugleikapunkti í bataferli sínu er venjulega kominn tími til þess að meta stöðuna í samráði við viðkomandi tryggingafélag og er þá fenginn til þess óháður matsmaður, en tveir matsmenn ef um ábyrgðartjón er að ræða. Ef aðilar eru sáttir við matið eru bætur úr slysatryggingu launþega greiddar eftir niðurstöðu matsins og hið sama gildir í meginatriðum um bótagreiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands, þar sem tryggingalæknir gerir örkorkumat. Uppgjör vegna ábyrgðartryggingar ef um slíkt er að ræða, fer eftir skaðabótalögum nr. 50/1993.

Það er því að mörgu að hyggja þegar vinnuslys verður, svo tjónþoli lendi ekki í þeim aðstæðum að bótaréttur þeirra fari forgörðum.

Hefð

Til eru nokkrar leiðir til þess að stofna eignarrétt. Algeng leið til þess er með kaupsamningi, til dæmis þegar fasteign er keypt. Ýmsar aðrar leiðir eru til þess að stofna og ljúka eignarrétti og kallast ein þeirra hefð – þegar eignarréttur ávinnst yfir ákveðinn tíma með vörslu eða notkun hlutar án þess að bein eignarréttindi hafi í upphafi verið til staðar.

Þessi leið skipti mun meira máli hér á árum áður en í dag, en reglur hefðarlaga eru engu að síður enn í fullu gildi. Að baki þeim liggja áhugaverðar ástæður og gaman er að velta þessu fyrir sér.

Þetta hugtak, hefð, hefur ekki ætíð verið til í íslenskum lögum, því það er hvergi að finna í Grágás né Jónsbók. Í Jónsbók segir þó, sem gefur til kynna að hugmyndafræðin hafi verið að skapast: „Nú hefir maður skóg, eng eða haga, reka eða aðrar landsnytjar.xx.[þ.e.20] vetr eða lengr átölulaust, þá á sá er haft hefir, nema hinn hafi lögleg vitni til, at hann á, ef hann skal úræntr vera“ (Jónsbók, bls. 156). Árið 1905 voru sett lög um hefðarrétt, þar sem hefðarréttur var skilgreindur betur og með þeim var ákvæði Jónsbókar fellt úr gildi.

Ákveðnar reglur eru um hvernig skal vinna hefð á hlut skv. lögunum, t.d. þarf að hafa óslitið eignarhald á honum í tiltekinn tíma, sem eru 20 ár fyrir fasteign og 10 ár fyrir lausafé. Þá þarf hefðandinn að hafa verið í góðri trú, þ.e. hann má ekki hafa náð eignarhaldinu á glæpsamlegan hátt. Hefðandi má ekki hafa tekið hlutinn á leigu, til geymslu eða láns.

Hagsmunir hefðanda eru oft miklir, til dæmis þegar hann hefur, í góðri trú, haft eignarhald og afnot af hlut í mörg ár. Hefðarlögin voru einnig sett til að gæta þess að hagsmunum hefðanda væri ekki raskað um of, til að koma aftur á lögmætu ástandi – þ.e. að koma hlutnum aftur til síns skráða eiganda, ef einhver er. Með lögunum var því verið að segja að raunverulegt ástanda mála gæti, eftir tiltekinn tíma, haft meiri áhrif en hið lögmæta ástand og því gæti hið raunverulega ástand orðið lögmætt.

Fullnuð hefð skapar eignarrétt yfir hlutnum sem er í eignarhaldi og þarf ekki frekari eignarheimilda við, skv. 6. gr. laganna. Þá er einnig til hugtakið afnotahefð sem felur í sér takmörkuð eignarréttindi, svo sem beitarréttindi. Slík réttindi eru einmitt dæmi um helstu aðstæður nú á dögum þar sem um hefð getur verið að ræða. Í því samhengi má einnig nefna afréttarnot.

Erfðaskrá

Erfðaskrá er formlegt skjal sem aðili getur útbúið og farið er eftir við skiptingu eigna eftir andlát aðilans, að teknu tilliti til annarra erfðareglna. Erfðaskrá þarf að uppfylla ákveðna þætti sem eru skilgreindir í erfðalögum til að vera gild, en formreglur um erfðaskrár eru mjög skýrar.

Erfðaskrá þarf að vera skrifleg, með ákveðinni undantekningu þó – og vottuð með sérstökum hætti af tveimur vottum sem eru til þess hæfir samkvæmt erfðalögum, eða sýslumanni.

Til þess að geta útbúið erfðaskrá verður aðili að vera orðinn 18 ára eða í hjúskap (við hjúskap verður aðili fjárráða). Þá þarf aðilinn einnig að vera svo heill heilsu andlega, að hann sé fær um að gera hlutaðeigandi ráðstöfun á skynsamlegan hátt.

Við vissar aðstæður eru ákveðnar takmarkanir á því hve stórum hlut eigna sinna arfleifandi getur ráðstafað með erfðaskrá. Ef maki eða niðjar eru til staðar má aðili ráðstafa 1/3 eigna sinna með erfðaskrá en 2/3 skiptast eftir ákveðnum reglum erfðalaga. Séu maki og niðjar ekki til staðar, getur arfleifandi hins vegar ráðstafað öllum sínum eignum með erfðaskrá. Ákveðnar takmarkanir eru á efni erfðaskrár, en t.d. er óheimilt að mæla fyrir um eyðileggingu og ekki má erfðaskrá eða fyrirmæli hennar ganga gegn almennum lögum eða siðferði.

Ef upp kemur vafi um túlkun erfðaskráa er farið eftir ákveðnum reglum þar um og reynt eftir fremsta megni að fylgja vilja arfleifanda ef um hann er vitað.

Vilji aðili haga skiptingu eigna sinna á annan hátt en eftir erfðalögum við andlát sitt, er nauðsynlegt að huga að gerð erfðaskrár. Þá er einnig gott að hafa í huga að reglur erfðalaga ná aðeins að föður- og móðurforeldrum og föður- og móðursystkinum, en eftir það tekur erfðafjársjóður arf eftir arfleifanda, sé erfðaskrá ekki til staðar.

Dánarbú
Við andlát einstaklings skapast tilkynningarskylda á nánustu aðstandendur hins látna. Þá fá aðstandendur dánarvottorð hjá lækni og afhenda sýslumanni. Við andlát flyst einnig forræði á öllum eignum hins látna til sýslumanns og aðstandendum er ekki heimilt að ráðstafa neinu af hans eigum án leyfis frá sýslumanni. Þetta fyrirkomulag tryggir það að gengið sé frá málum hins látna; eignum skipt og að dánarbúinu verði lokað.

Um skipti dánarbús gilda ákveðnar reglur, s.s. um lok skipta, erfðarétt og setu maka í óskiptu búi sem allar þarf að hafa í huga. Erfingjar geta séð um skipti búsins sjálfir og tekið á sig ábyrgð á skuldum búsins, það kallast einkaskipti. Einnig er hægt að óska eftir opinberum skiptum dánarbúsins. Þá er skipaður skiptastjóri sem sér um að skipta eignum búsins, greiða skuldir og úthluta arfi ef einhver er.

Meginatriðið í ákvörðun um hvort erfingjar taki bú í einkaskipti eða ekki er í raun skuldaábyrgðin, þar sem við einkaskipti taka erfingjar ábyrgð á öllum skuldum dánarbúsins hvort sem erfingjar vita um þær eða ekki.  Það er því mikilvægt að kynna sér stöðu mála vel. Oft kjósa erfingjar að fá utanaðkomandi aðstoð lögmanns til að ljúka skiptunum, vera í samskiptum við sýslumann og úthluta arfinum við lok skipta.